894 8779 gudrun@eilifdarsol.is

Jógafrí

Jógafrí

Mílanó

Sagt hefur verið um borgirnar Róm og Mílanó að Róm geymi hjarta Ítalíu og Mílanó höfuðið. Einnig er til er ítalskt orðasamband sem segir Róm vera hina vel vöxnu mey sem öllum er ljóst að hefur ýmislegt til að bera meðan Mílanó er feimin stúlka sem heldur sig til hlés en býr yfir stórum kostum sem tíminn einn leiðir í ljós. (Maður/kona spyr sig hvort hér skíni samt mest milli lína remba hins dæmigerða ítalska karlmanns? ;))

Mílanó er höfuðborg Langbarðalands og önnur stærsta borg Ítalíu með tæplega tvær milljónir íbúa. Við blasa tignarlegir Alparnir í norðri og frá henni liggja stuttar vegalengdir til Sviss, Þýskalands og Frakklands. Borgin stendur í Pódalnum, hinu mikla landbúnaðarsvæði sem kennt er við við ána Pó. Um þann dal liðast áin sem hefur safnað í sig þverám sínum er falla úr Alpafjöllunum, Appennínafjöllunum og Dólómítunum. Alls er áin  652 kílómetra löng og fellur loks út í Adríahaf. Í frjósamri jörð Pódalsins er ræktað hveiti, maís og sykurrófur og hrísgrjón þar sem gætir meira votlendis.

Á miðri sléttu Langbarðalands liggur Mílanó og er tengd með skipaskurðum við árnar Ticino og Pó og vötnin Lago Maggiore og Comovatn. Skipaskurðirnir gerðu mönnum kleift til dæmis að flytja marmara í tonnatali til að byggja hina glæstu byggingu dómkirkjuna. Duomo þykir með fegurstu kirkjum í gotneskum stíl og marmarinn sem hana prýðir á uppruna sinn í Ölpunum.

Milano domkirkja

Svipast um á þaki dómkirkjunnar við sólarlag. Hvert sem litið er, er þessi kirkja skreytt styttum og súlum.

Mílanó er nýtískuleg að mestu leyti og jafnvel gamli borgarhlutinn er tengdur breiðgötum, sem geisla út frá borgarmiðjunni.  Mörg hús frá fyrri öldum sýna ýmiss konar stílbrigði sem gaman er að rýna í í ljósi sögunnar.  Þau stóðu heil eða voru endurbyggð eftir seinni heimstyrjöldina en Mílanóborg kom löskuð út úr henni að stórum hluta.

Með réttu ætti Mílanó að vera höfuðborg Ítala því þar er efnahagsleg þungamiðja landsins – hún er kraftmikil borg og stílhrein, nýtískuleg og fátt þar sem minnir á rómverska keisaratímabilið sem Róm er kannski að sligast undan.

Milano duomo

Til að komast upp á þak kirkjunnar þarf að kaupa aðgang og fara má upp með lyftu eða ganga þröngan steinlagðan hringstiga.

Hjarta og miðja Mílanó er við dómkirkjuna. Allt frá 4. öld var svæðið sem dómkirkjan stendur á þungamiðja trúarlífs – þar stóðu áður kirkjur er voru mölvaðar niður til að útbúa pláss fyrir hina nýju glæstu kirkju og torgið umhverfis hana.

galleria vittorio emanuelle

Því fylgir gæfa að setja hælinn á eistu nautsins í mósaikmyndinni á gólfi gallerísins og snúa sér í hring …auðvitað gerir maður það …

Árið 1860 var ákveðið að byggja við hlið torgsins glæsilegt vöruhús – einstakt á heimsvísu. Og þá þurfti að fórna húsum – svo fyrsta bygging Ítala úr gleri og járni mætti rísa – Galleria Vittorio Emanuele – glæst á þeim tíma og er enn. Þetta vöruhús varð eitt af táknum eða kennileitum Mílanó eftir sameiningu Ítalíu í eitt ríki.

Þetta mannvirki er glæsileikinn uppmálaður, stendur við hlið Scala óperunnar og dómkirkjunnar á besta stað í bænum og hefur verið kölluð móðir allra verslunarmiðstöðva sem skilst alveg þegar komið er á staðinn. Þrátt fyrir að við liggi að byggingin sjálf sé gullslegin og þar inni séu verslanir sem selja hátískuvörur þá má samt skemmta sér við að skoða skreytingar á gólfum og loftum og veggjum; fá sér ís og kaffi.

galleri milano

Það er margt að sjá í Mílanó – Sforzesco kastalinn (Castello Sforzesco) var upphaflega höll í eigu tveggja ætta, Visconti- og Sforza sem byggð var árið 1368. Á þeim tíma var svæðið umhverfis óbyggt og þakið skógi. Höllinni var breytt í  virki sem svo var stækkað á 15. öld upp í kastala. Hann var svo stuttu síðar gerður að undurfallegri hertogahöll – sem stóð þó ekki lengi sem slík því  hún var að hluta eyðilögð árið 1447.

Þá upp úr 1450 kom til kasta Sforza feðga. Lávarður í Mílanó ásamt syni sínum gerði kastalann upp svo hann varð einn af glæsilegustu köstulum endurreisnartímans – sem snillingur einsog Leonardo da Vinci lauk lofsyrði á.
sforza kastali
Gæti kastalinn sagt sögu sína þá kæmi fram að hann hefur marga fjöruna sopið. Ítalía var um aldir stríðshrjáð land eins og gildir um flest lönd Evrópu. Á sextándu til átjándu öld náðu Spánverjar og  Austurríkismenn yfirráðum yfir héraðinu og þá varð mikið hnignunarskeið í sögu kastalans en þá var hann var nýttur í hernaðarskyni.

Kastalanum  var svo bjargað frá eyðileggingu um aldamótin 1900 er hann var endurbyggður og gerður að mikilvægu safni. Í dag er hann eitt af kennileitum borgarinnar og umhverfis hann er fallegur og skoðunarverður kastalagarður.

Það mætti lengi segja frá þessari mögnuðu borg – Leondardo da Vinci bar á góma hér ofar … styttu af honum má sjá á Skalatorginu og í gömlu klaustri við hliðina á kirkjunni Santa Maria delle Grazie, er að finna hina frægu mynd meistarans, Síðustu kvöldmáltíðina. Á henni sést hvar Jesú situr dapur í bragði við langborð ásamt lærisveinum sínum. Þar er dregið upp á magnaðan hátt er hann segir lærisveinum sínum að hann eigi eftir að verða svikinn af einum þeirra. Það er hægt að skynja þetta augnablik, þessa frosnu stemmingu í lærisveinahópnum, sem meistaranum tókst að koma í málverk og fyrir það er það frægt – en til að sjá það þarf að panta miða með löngum fyrirvara. Verkið er í herbergi sem eitt sinn var matsalur klaustursins og átti að vera munkunum ævarandi áminning um þennan atburð.

sidasta kvoldmaltid da vinci

Íhugun við eftirmynd Kvöldmáltíðarinnar. Frummyndin er freskuverk – gert á vegg í klaustrinu og engar myndatökur leyfðar.