894 8779 gudrun@eilifdarsol.is

Jógafrí

Jógafrí

Monte Isola

Monte Isola – perla í Iseovatninu

Monte Isola eyjan stendur í Lago d‘Iseo sem er sjöunda stærsta stöðuvatn Ítalíu og hið fjórða stærsta í Langbarðalandi. Vatnið var myndað af skriðjökli sem skreið niður dalinn Val Camonica. Hann teygir sig 90 km langa leið úr 1883 metra hæð niður úr Ölpunum. Í þessum dal er að finna hellaristur sem eru taldar um fimmtán þúsund ára gamlar. Þar um dalinn rennur áin Oglio og fellur út í Iseo vatn.

Iseo sigling

Helstu bæir við Iseovatnið eru samnefndur bær, Sarnico, Lovere og Pisogne. Iseobærinn er sjarmerandi með gamla borgarmiðju sem er upprunaleg, hjarta bæjarins er við Garibaldi torgið; þar eru göngugötur og verslanir, kaffihús og veitingastaðir.

Sarnico bærinn við suðurenda vatnsins er mikilvæg samgöngu- og verslanamiðstöð. Þar er að finna hús í Art Noveau stíl – Villa Faccanoni frá 1912 og þykir eitt af bestu dæmum um þennan stíl. Villan liggur við bakka vatnsins, umlukt fallegum garði og háum trjám, og nýtur sín best séð frá vatninu.

Ferjur ganga um vatnið og hægt að stökkva í land og skoða bæina að vild bæði á meginlandinu og einnig í eyjunni. Bæði norðan og sunnan við hana eru pínulitlar eyjar – báðar ævintýri líkastar og eru í eigu einkaaðila. Isola di San Paolo sunnan megin og Loreto að norðan voru á víxl í eigu aðalsætta og klausturreglna. Á Loreto eyju var byggður kastali árið 1905 í nýgotneskum stil, með tveim turnum, litlu bátavari og garði umhverfis. Klausturbyggingar og garður prýða einnig San Paolo eyjuna.

 

Slakað á í hjólatúr um Monte Isola og horft til Loreto eyjarinnar

Þegar farið er um veginn í hæðunum vestan vatnsins gefst gott útsýni til Monte Isola eyjarinnar – sem er stærsta byggða eyja í stöðuvatni í Evrópu. Þar á efsta tindi sem rís í 600 metra hæð er grafreitur Madonnu della Ceriola. Um eyjuna dreifa sér nokkur þorp sem gaman er að koma í. Lítill strætó gengur um eyjuna og einnig má leigja sér hjól og fara sinna ferða þannig. Eyjan er hrein og ósnortin að hluta svo ef hjólað er hringinn um hana, sem er um 15 kílómetrar og tekur um klukkustund í einni lotu, er farið um svæði með ólífutrjám og skógum. Bílaumferð er ekki leyfð, einungis strætó, reiðhjól og vespur aka um vegina svo friðsældin er mikil.

 

Monte Isola eyja

Hjóla má hring um eyjuna eftir vegi sem liggur með ströndinni. Friðsæld og huggulegheit, fegurð og yndi …

Íbúar á eyjunni allri telja um 1800. Þar er að finna kirkjur sem byggðar voru á 15.-17. öld, margar prýddar freskuverkum og styttum.

Vilji maður staldra við í þorpunum er skoðunarverð kirkjan S. Michele í Peschiera Maraglio þorpinu. Hún var vígð um miðja 17. öld, og er í barokkstíl, með freskum á veggjum og lofti. Einnig virkið Martinego með aðgengi frá Menzinoþorpi, sem var byggt á 15. öld. Svo má hjóla eða ganga veginn upp að grafreit Madonnu della Ceriola og þá farið frá bænum Pechiera Maraglio upp til þorpsins Cure sem er á miðhluta eyjarinnar.

En annars er þessi eyja yndisleg bara til að vera á og njóta.

Á hverju ætli eyjabúar lifi? – jú, fiskveiðum, ólífurækt   – þar má fá góðar ólífuolíur. Og sjálfsagt lifa einhverjir á túrhestum …