894 8779 gudrun@eilifdarsol.is

Jógafrí

Jógafrí

Veróna

Veróna er ásamt Róm, Flórens og Feneyjum á meðal vinsælustu borga Ítalíu. Hún er sögð ein elsta og fegursta borg landsins, og er næststærsta borg Venetohéraðsins, staðsett milli Veneto sléttunnar, Gardavatnsins og Dólómítafjallanna. Hún stendur nánast mitt á milli Mílanó og Feneyja, nálægt austurhluta vatnsins Garda, og varð borgin snemma mikilvæg samgönguleið milli ítölsku Alpanna og Pósléttunnar.

verona

Í borginni er að finna magnaðar minjar frá tímum Rómarveldis og ber hæst hringleikahúsið Arena. Í gegnum borgina rennur áin Adige sem gefur henni aukna fegurð og fallegt er að ganga með bökkum hennar. Í sögunni hefur borgin þróast frá því að vera lítið þorp sem byggðist upp við bakka Adige í að verða fullvaxta borg með um 265.000 íbúa.
Þetta er borg menningar, lista og ekki síst rómantíkur og á hverju götuhorni er eitthvað sem gleður augað. Göturnar eru tandurhreinar, svo hreinar að göngugatan glansar, í orðsins fylltu merkingu og þar standa hátískuverslanirnar ein af annarri.

Við ána sem liðast um gamla borgarhlutann stendur myndarlegur kastali og þar er skemmtilegt að ganga um. Við stærsta torgið Piazza Brá er Hringleikahúsið, Arena og þar eru settar upp óperur yfir sumartímann og þar má upplifa einstaka stemmningu. Shakespeare sviðsetti hér hina margrómuðu ástarsögu sína en borgin er alveg sérlega rómantísk og því ekki að ástæðulausu sem hann valdi Verona sem sögusvið einnar frægustu ástarsögu allra tíma, Rómeó og Júlíu. En að auki gerast tvö önnur verk Shakespeare í borginni; The Two Gentlemen of Verona og The Taming of the Shrew.

Sé gengið eftir aðalgötunni Via Mazzini allt til enda má taka nokkur skref til hægri og finna hús Júlíu “Casa di Giulietta”. Heimili Capuleti fjölskyldunnar er frá 13. öld og þar eru svalir Júlíu hvar undir Rómeó flutti sínar Sonnettur. Ekki skulu færð rök fyrir hvort Júlía og Cappelletti fjölskyldan bjuggu nokkurn tímann í þessu húsi, en svalirnar eru á sínum stað og hægt að ganga inn í lítinn bakgarð, skoða styttu af Júlíu og mæna þaðan upp á svalirnar.
Og svo má skella sér í röðina til að strjúka brjóst Júlíu – sumsé styttunnar – en það er talið boða gæfu að gera það …

Júlía Shakespeare

Helstu torg Verona heita Piazza delle Erbe og Piazza Brá. Þau setja fallegan svip á borgina og glæða hana stemningu. Að auki er svo þriðja torgið Piazza dei Signori sem prýtt er fallegum byggingum og á miðju torgi má berja augum styttu af miðaldaskáldinu Dante.