894 8779 gudrun@eilifdarsol.is

Jógafrí

Jógafrí

Ferðasaga kennara úr Réttarholtsskóla

Sex daga ferð – hress hópur starfsmanna úr Réttarholtsskóla

Þessi ferð var í október, ekki beint flug í boði og því þurfti að taka millilendingu í Kaupmannahöfn og svo flug áfram til Malpensa flugvallar. Að lokinni rútuferð frá velli vorum við komin seint á hótelið í Saló eða um klukkan að verða tíu að kvöldi en starfsfólkið á Hotel Panoramica beið okkar með hlaðborð af girnilegum smáréttum sem glöddu svanga ferðalanga.

Að morgni fyrsta dags var gaman að vakna og sjá yfir umhverfið frá hótelinu en þangað höfðum við komið í myrkri. Við fórum í jóga og hugleiðslu fyrir morgunmat og síðan fóru flestir í hjólaferð með hjólaleiðsögumanni úr héraðinu. Farið var um nærliggjandi sveitir og bæi, upp um hæðir og hóla svo það tók vel í lærin; margir voru fegnir að vera á rafmagnshjólum sem auðvelduðu leiðina allverulega upp brekkurnar. Síðari hluta dagsins var afslöppun og margir kíktu í bæinn en að fara niður að vatni er 15-20 mínútna ganga.

Næsti dagur hófst með jóga og hugleiðslu og morgunverði og síðan var haldið til Veróna. Veróna er yndisleg með gamlan borgarhluta í miðju og þegar gengið er með gamla múrnum má setja sig í spor fólks á miðöldum; margir lifðu allt sitt líf innan borgarmúra og sáu aldrei sveitir, aðra bæi eða sjó. Djásn borgarinnar er forna hringleikahúsið, Arena, og Piazza Bra, torgið stóra þar fyrir framan. Við fórum inn í Arena og skoðuðum þetta mannvirki sem tekur rúmlega 20.000 manns í sæti. Á sumrin eru þar fluttar óperur og oft eru stórir tónleikar haldnir þar undir beru lofti.

Við röltum svo tískugötuna Via Mazzini sem liggur í átt að húsi Júlíu. Þar var mannþröng og hálfgerður barningur að komast að Júlíu sjálfri til að tryggja sér hamingjuna – strjúka hennar hægra brjóst en nokkrum úr hópnum tókst það. Við endann á Via Mazzini er fallegt torg, Piazza Erbe, þar settumst margir að snæðingi enda komið fram yfir hádegisverðartíma. Hópurinn dreifðist, sumir kíktu á kastalann við ána, aðrir týndust í búðum.

Næsta dag hófum við eins og hina fyrri með jóga, hugleiðslu og morgunverði og síðan beið frjáls dagur. Hluti hópsins fór í hjólaferð, hluti var í bæjarrölti í Saló og nokkrir tóku ferjuna yfir til Sirmione. Þessi skemmtilegi bær er fullur af lífi og þegar siglt er inn í höfnina blasir við ægistór og fallegur kastali. Hann er gaman að skoða og það gerðu nokkrir, annars var hægt að ramba um litlar götur með litlum búðum, veitingastaðir, ísbúðir og bara nefndu það … Síðdegis var haldið aftur heim með ferjunni og flestir borðuðu kvöldmat í miðbæ Saló sem státar af mörgum góðum veitingastöðum.

Næsti dagur hófst á jóga, hugleiðslu og morgunverði og bar með sér óvænta uppákomu þegar afmælisbarni dagsins, sem var kennari í hópnum, var færður óvæntur glaðningur – ferðastaska sem hafði skilað sér úr fluginu frá Íslandi daginn áður – en einhverjum fannst við hæfi að afhenda hana einmitt á þessum degi en ekki daginn áður!!!

Við tók frjáls dagur og að kvöldi var farið í heimsókn á vínbúgarð sem hefur verið í eigu sömu fjölskyldu allt frá miðöldum. Veitt var af vínum og smáréttir bornir með áður en sest var saman við kvöldmatarborð í fallegum sal á vínbúgarðinum.

Síðasti dagur ferðar var tekinn snemma og keyrt í fallegum geislum morgunsólar skínandi yfir Gardavatni til Malpensa flugvallar. Þar var tekið flug með millilendingu í Kaupmannahöfn og lent að kvöldi á Fróninu góða.

Comments are closed.