894 8779 gudrun@eilifdarsol.is

Jógafrí

Jógafrí

Dagskrá jógaferðar til Bled

Dagur 1

Flug frá Keflavík Til Brnk flugvallar við Ljubliana og við tekur rútuferð á hótel. Við slökum á það sem eftir er dagsins og njótum fegurðarinnar við hið rómaða Bled vatn. Umhverfið er eins og í ævintýri, undir háum tindum Alpanna kúrir vatnið og við blasa villur og sumarhallir við bakka.  Í miðju þess er eyjan  Blejski Otok með fagurri kirkju sem geymir leyndardóm í turni sínum. Og á háum kletti um hundrað metra ofan vatnsins situr Blejski Grad, kastalinn sem er vel þess virði að ganga upp til þótt það kunni að taka í lærin…

Blejski Grad er fallega staðsettur með gott útsýni yfir fagurt Bled vatnið. Fjær má sjá eyjuna Blejski Otok. (Mynd: Bled LTO)

Dagur 2

Frjáls dagur. Eftir jóga og morgunverð er  til dæmis hægt að sigla út í eyjuna á vatninu eða fara í gönguferð en gönguleiðir eru margar og skemmtilegar við Bled vatn. Einnig er hægt að leigja hjól, og hjóla í næstu sveit eða umhverfis vatnið eða rölta um götur bæjarins við vatnið en þar búa um 6000 manns.

Hið fagra Bled vatn sem liggur suður af Júliönsku ölpunum myndaðist fyrir um 14.000 árum, skorið svo fagurlega af ísaldarjökli sem í leiðinni skar fagra dali þar í kring. Vatnið er rúmir tveir kílómetrar að lengd og að breidd frá hálfum til eins kílómetra. Dýptin nær 31 metrum – svo jökullinn sem skar hefur verið þokkalega stór … Að sumarlagi verður vatnið um 24 gráðu heitt og því vinsælt til baða.

Dagur 3

Að loknu jóga og morgunverði leggjum við af stað klukkan 10 til borgarinnar Ljubljana. Ljubljana er höfuðborg Slóveníu og þar búa um 300.000 manns.  Hún hefur oft verið nefnd litla Prag og ástæðan er falleg borgarmiðja hennar með brúm og fögrum byggingum sem mynda fallega heild. Arkitektinn Jože Plečnik er höfundur flestra bygginga í miðbæ Ljubljana en stór hluti borgarinnar hrundi í jarðskjálftum árið 1895. Brýrnar þrjár eru eitt af verkum hans og  liggja yfir ána Ljubljanicu sem hringar sig um elsta hluta borgarinnar. Þar í miðju er kastalinn, Ljubljanski Grad, staðsettur efst á hæð. Þangað má ganga þröngar götur upp gegnum bæinn eða taka lyftu sem flytur mann upp undraskjótt.

Við enda brúnna þriggja er bleika kirkjan og þar fyrir framan er stytta af France Preseren, ljóðskáldinu í hjarta bæjarins sem horfir þvert yfir torgið til elskunnar sinnar – hennar Juliju Primic sem á lágmynd veifar úr glugga – til hennar orti hann ótal ástarljóð. Ævi hans er um margt lík ævi þjóðskáldsins okkar, Jónasar Hallgrímssonar.

Koma til baka að hóteli er áætluð klukkan 20:00.

Dagur 4

Frjáls dagur. Eftir jóga og morgunverð væri til dæmis hægt að taka strætó til Bohinj sem er undurfallegt vatn undir háum tindum. Þar má fara með kláfi upp á tind – góð áskorun fyrir lofthrædda … Svo eru líka skemmtilegar gönguleiðir meðfram vatninu og hægt að leigja bát og róa, eða bara slaka – náttúrufegurð er dásamleg.

Kyrrð og töfrar einkenna Bohinj vatnið, stærsta stöðuvatn Slóveníu, um þrír ferkílómetrar, kúrir undir háum Alpatindum og skorið af jökulís rétt eins og Bled vatnið. (Mynd: Bled LTO)

Dagur 5

Eftir jóga og morgunverð leggjum við af stað klukkan 9:00 til bæjarins Piran sem er staðsettur við ströndina lengst í suðri. Fallegur gamall miðaldabær með þröngum bröttum götum, efst er kastalaveggur sem gefur gott útsýni yfir svæðið. Falleg höfn með bátalífi og göngugata meðfram ströndinni með kaffihúsum og veitingastöðum. Ef það er of heitt má baða sig í sjónum – en strönd þarna er klettótt og þakin steinum víða – eða stinga sér inn í þröngar götur og rölta og týnast … Eftir að hafa unað okkur þar skreppum við í næsta bæ sem er þekktur sólstrandarbær, Portoroz. Þar er sandströnd sem hægt er að kúra sig niður í og njóta baðs sólar og sjávar. Til Bled höldum við svo klukkan 20:00.

Dagur 6

Frjáls dagur. Eftir jóga og morgunverð er  til dæmis hægt að sigla út í eyjuna eða fara í gönguferð en gönguleiðir eru margar og skemmtilegar við Bled vatn. Einnig er hægt að leigja hjól, og hjóla í næstu sveit eða umhverfis vatnið. Eða ef þig langar aftur til Ljubljana þá tekur aðeins um klukkustund að ferðast þangað með rútu… Eða bara eitthvað allt annað – það er svo margt hægt að gera…

Það er hægt að fá far með báti sem þessum og sigla út í eyjuna fögru í Bledvatni. Í baksýn trónir kastalinn á kletti sínum og fyrir miðju er kirkjan St. Martin, sem dundað var við að byggja 1903 til 1905 í nýgotneskum stíl.

Dagur 7

Eftir jóga og morgunverð leggjum við af stað klukkan 10:00 til Alpabæjarins Kranjska Gora sem er vel þekktur skíðabær. Við ökum undurfagrar leiðir og njótum fegurðar Alpatinda. Frá Kranjska Gora höldum við til borgarinnar Skofia Loka, þar er gamall kastali og gamall borgarhluti sem gaman er að rölta um.

Dagur 8

Við kveðjum hótelið okkar og höldum af stað  til flugvallarins. Flugtími ræður hvort unnt verður að staldra einhvers staðar við á leiðinni og skoða áður en farið er á flugvöll.

  • Viltu vita meira? Sendu póst á gudrun@eilifdarsol.is