894 8779 gudrun@eilifdarsol.is

Jógafrí

Jógafrí

Jógaferð til Iseo vatns 5.-12. júní 2018

Hver dagur hefst með léttu morgunjóga og stuttri hugleiðslu. Jóga nidra slökun og hugleiðsla er svo valfrjáls síðdegis. Þessi ferð er upplögð til að afstressast – losna undan spennu vetrarins og leyfa slökun og núvitund að taka yfir. Við munum fara í gönguferðir í yndislegu nærumhverfi hótelsins sem liggur í forölpum Ítalíu ofan Iseo stöðuvatnsins og skreppa í stuttar dagsferðir til Veróna og út í eyjuna Monte Isola sem liggur í Iseo vatni þar sem er yndislegt að ganga eða hjóla. Síðasta daginn kynnumst við ys og erli Mílanóborgar.

Dagur 1

Flug frá Keflavík og lent á Malpensa flugvelli. Við tekur rútuferð á hótel sem tekur tvær til tvær og hálfa klukkustund. Hótelið er sveitahótel i eigu fjölskyldu og staðsett hátt uppi í fjalli ofan Iseo vatnsins. Þangað liggur krókóttur vegur sem leiðir okkur gegnum gamalt þorp og þar rétt ofan við liggur hótel Conca Verde.

Dagur 2

Að loknu jóga, hugleiðslu og morgunverði er létt ganga frá hóteli um skemmtilegan stíg í fjallinu þar sem eru útskornar styttur úr trjábolum gerðar af listamanninum Luigi Zatti. Þar eru ævintýraverur af ýmsu tagi – drekar, birnir og persónur úr ævintýraheimum. Við gerum svo hugleiðslu síðdegis.

Jógastaða með skógardverg

Dagur 3

Dagur hefst með jóga, hugleiðslu og morgunverði á látlausa en huggulega hótelinu okkar. Ef vel viðrar getum við setið á veröndinni og notið kyrrðar sveitarinnar. Kannski heyrist bjölluhljómur úr skóginum – þær tilheyra kúnum.  Í nágrenni við hótel Conca Verde er skemmtileg gönguleið með sérkennilegum bergmyndunum sem kallaður er Piramides. Stórfengleg flóð hafa mótað umhverfið svo eftir standa strýtur sem minna á verur úr öðrum heimi. Við göngum þangað og njótum þessara undursamlegu náttúru. Hægt er að ganga stíg niður í dalinn með strýtunum og unnt að komast all nærri þeim en staðurinn er verndaður. Síðdegis gerum við hugleiðslu.

 

Dagur 4

Við hefjum daginn sem fyrr með jóga og hugleiðslu og morgunverði, kannski við fuglasöng. Við ferðumst að hætti innfæddra og tökum strætó niður að Iseovatni. Þaðan tökum við bát sem siglir um vatnið og að pínulitlu eyjunum tveim, San Paolo og Loreto, áður en við tökum land í stærstu eyjunni, Monte Isola.  Þar ætlum við að ganga upp á hæsta tind eyjarinnar í 600 metra hæð sem hefur að geyma kirkju og grafreit helgaðan Maríu mey. Þar uppi ætlum við að gera hugleiðslu.

Gaman er að ganga um þorpin á eyjunni sem eru ekta ítölsk sveitaþorp, og einnig er hægt að leigja hjól sem hjóla má á umhverfis eyjuna eða að hluta. Krafist er skilríkja af leigutaka og gott að hafa það í huga fyrirfram. Eyjan er undurfalleg draumaveröld sem er yndisleg að njóta. Hver um sig greiðir fyrir far í strætó og í bátsferðina.

DSC_0145

Monte Isola eyja er ekki stór og tekur um klukkustund að hjóla hringinn ef lítið er stoppað á leiðinni. Það er hins vegar um að gera að leyfa sér að drolla og njóta því þarna er yndisfagurt.

Dagur 5

Að loknu morgunjóga og hugleiðslu og morgunverði verður stefna tekin í göngu upp í fjallið ofan hótelsins. Þar er í byrjun gengin  steinum lögð gata sem margir fætur hafa gengið í tímans rás, í mismunandi skóbúnaði og kannski sumir berfættir því gatan sú var lögð í tíð Rómverja. Skammt ofan við hótelið er komið að stað þar sem sannað þykir að fótspor risaeðla sjáist í klettum. Halda má áfram í göngu sem tekur allt að 5 klukkustundum fyrir þá sem vilja ná upp á tind og sjá vel yfir. En einnig er hægt að velja skemmri leið og njóta fagurs útsýnis yfir Iseo vatnið. Hugleiðslu gerum við svo síðdegis.

DSC_0052 (2)

Ganga upp fjallið frá hótelinu getur leitt mann á hæstu tinda þar sem útsýnið er flott. Og hver veit nema hótelhundurinn fylgi með?

Dagur 6

Dagur hefst með jóga og hugleiðslu og morgunverði. Síðan tökum við rútu til hinnar fallegu borgar Verona, þar má meðal annars skoða húsið hennar Júlíu og berja augum styttuna af henni í húsagarðinum, en Shakespeare valdi Veróna stað sem sögusvið fyrir sögu hennar og Rómeós. Það er gaman að rölta um þessa fögru borg, um skemmtilegar götur og torg. Þar eru fallegar byggingar og grafhýsi frá tíð ættarvelda á miðöldum, hringleikahús frá tíð Rómverja og kastali og falleg kastalagöng við ána Adige sem hringar sig um elsta hluta borgarinnar. Við munum mögulega gera hugleiðslu í hringleikahúsinu ef ferðamannays er ekki of mikill.

Verona

Hringleikahúsið í Veróna er geysistórt og rúmar um 20.000 manns í sæti. Þar eru að sumarlagi haldnir tónleikar og óperur – kannski sjáum við þar leikmuni úr Aidu eða Carmen?

Dagur 7

Að venju hefst dagurinn með jóga, hugleiðslu og morgunverði og síðan er dagurinn þinn! Frjáls dagur til að njóta nákvæmlega þannig sem þú vilt hafa hann.

Dagur 8

Að lokinni okkar daglegu morgunrútínu kveðjum Hótel Conca Verde og ökum til Mílanó – sem er með fallegan miðbæ, ægifagra dómkirkju og kastala og kastalagarð, og fallegar verslunargötur nærri dómkirkjunni, þar á meðal er Galleria Vittorio Emanuele sem er yfirbyggð verslanagata úr gleir og stáli. Svo er um að gera að rölta um og líta augum Scala óperuhúsið og Leonardo da Vinci styttuna þar nærri svo eitthvað sé nefnt.

 

Við Sforza kastalann í Mílanó

Að kvöldi förum við í rútuna sem ekur okkur út á Malpensaflugvöll. Þaðan eigum við flug og komum heim endurnærð eftir dásamlega dvöl.

Fararstjórar og jógakennarar í júníferð 2018 verða Guðrún Hálfdanardóttir og Estrid Þorvaldsdóttir.

Tími: 5.-12. júní 2018

Verð: 205.000 í tveggja manna herbergi og 235.000 kr. í eins manns herbergi.

Innifalið: Flug, gisting, morgunverður og kvöldverður fjóra daga, gönguferðir í nærumhverfi hótelsins, dagsferðir til eyjarinnar Monte Isola og borganna Veróna og Mílanó, ferðir til og frá flugvelli, leiðsögn og jóga- og hugleiðslunámskeið sem verður flettað inn að stórum hluta í dagskrá daganna. Ekki er innifalið gjald í strætó eða ferju.

Skráning og frekari upplýsingar: Guðrún Hálfdanardóttir – s. 8948779 – gudrun@jogafri.is