894 8779 gudrun@eilifdarsol.is

Jógafrí

Jógafrí

Jóga og sjálfsrækt við Gardavatn - Í samvinnu við SHJ ráðgjöf

Við eflum líkama, huga og sál! Allt þetta í einni ferð: Friður, íhugun, styrkleikar, gleði, jafnvægi, skemmtun, sérstaða, markmið,  flæði, núvitund, sóknarfæri, upplifun, slökun, hugsanir, viðhorf.

Vikudvöl við Gardavatn með morgunjóga, hugleiðslu og sjálfsrækt. Eftir hádegið heimsækjum við heillandi staði eins og Veróna, Feneyjar og Mílanó og bæina við Gardavatn.

Dagur 1

Flug frá Keflavík síðdegis og lent á Malpensa flugvelli seint að kvöldi. Við tekur rútuferð á hótel – áætluð koma er um eða eftir miðnætti. 

Dagur 2

Að loknu jóga og morgunverði eigum við spjall saman þar sem við leggjum inn umhugsunarefni fyrir sjálfsræktina og ræðum komandi viku.

Hótelið er í bænum Saló við vesturbakka Gardavatnsins. Niður að ströndinni er 20 mínútna ganga og þar er skemmtileg gönguleið með bökkum hins rómaða Gardavatns. Saló er um 10.000 manna bær og státar af dómkirkju í gotneskum stíl frá 15. öld. Þar við torgið er hægt að gæða sér á ís sem sagður er sá rjómakenndasti við vatnið – ísbúðin heitir La Casa del Dolce. Þar er líka gamli bærinn og helsta verslunargatan, Via San Carlo, sem liggur frá dómkirkjunni að torginu Piazza Zanelli.

Dagur 3

Dagurinn hefst á jóga og eftir morgunmat förum við í skemmtilega sjálfræktarvinnu (1-2 klst) þar sem við skoðum styrkleika okkar, sérstöðu og sóknarfæri. Við endum stundina á að setja okkur markmið sem við höfum í huga fram að næstu stund.

Það sem eftir er dagsins er frjáls tími. Það er hægt að skreppa í hjólatúr, eða í siglingu með ferjunni sem siglir um vatnið til dæmis til næsta bæjar, Sirmione sem er fallegur gamall bær með kastala frá miðöldum og skemmtilegar litlar götur sem gaman er að þræða og kíkja í litlar búðir. Eða fara í göngu, taka strætó til einhvers bæjar í grenndinni eða bara slaka við hótelið. Í garðinum er sundlaug þar sem ljúft er að sóla sig.

Dagur 4

Dagurinn hefst á jóga og eftir morgunmat ræðum við markmið okkar frá deginum áður. Verkefni dagsins (1-2 klst) er að við skoðum mátt eigin hugsana og hvaða áhrif viðhorf okkar hafa á lífsgæði. Við endum á markmiðssetningu.

Um hádegi förum við með rútu til hinnar fallegu borgar Verona og njótum leiðsagnar um land og þjóð. Veróna er einstaklega rómantísk borg og þar má meðal annars líta hina einu sönnu Júlíu augum og svalirnar hennar frægu en saga hennar og Rómeós gerist þar.  Einnig eru þar skemmtilegar götur, fornt hringleikahús frá tíð Rómverja, falleg torg og kastali við ána.

Dagur 5

Dagurinn hefst á jóga og eftir morgunmat ræðum við markmið okkar frá deginum áður. Verkefni dagsins (1-2 klst) er gleði og jafnvægi; hvaðan kemur gleðin,  hvernig nærum við hana og hvað vinnur með/gegn jafnvægi okkar í daglegu lífi? Við endum á markmiðssetningu.

Eftir hádegi er margt hægt að gera – fara í hjólatúr, taka strætó eða ferju í einhvern bæjanna við vatnið, skreppa til Bergamo sem er fallegur bær, kíkja á vínbúgarð eða bara slaka … Stætóferð til Limone – „sítrónubæjarins“, tekur um klukkkustund og til Gargnano um hálftíma en báðir þessir bæir eru við vesturhluta vatnsins. Svo er líka hægt að taka siglandi strætó - ferjuna sem siglir milli bæja við vatnið.

Dagur 6

Dagsferð til Feneyja – bæjarins á floti. Eftir jóga og morgunverð ökum við um sveitir og eftir hraðbraut til Feneyja. Þangað er um tveggja  klukkustunda akstur, en fer talsvert eftir umferð. Þar munum við spóka okkur í þessari skemmtilegu, hægsökkvandi borg, sigla í strætó eins og þar tíðkast, liðast um í gondól þeir sem vilja, skoða Markúsartorg og allar hinar fjölmörgu fallegu byggingar sem finna má þar í kring. Endilega að skoða Rialto brúna og Markúsarkirkjan er einstök en standa þarf í röð til að komast þar inn. Röðin gengur þó hratt en koma þarf bakpokum í geymslu áður en farið er í röð.

Og skoða mannlífið - setjast á kaffihús, jafnvel við Markúsartorg - en höfum í huga að kaffibollinn þar kostar sitt!

Dagur 7

Við hefjum daginn með jóga og eftir morgunmat förum við yfir markmið okkar frá degi 5.  Viðfangsefni dagsins er forgangsröðun þar sem við förum yfir nærandi og íþyngjandi þræði í okkar daglega lífi, hugsunum og venjum. Endum svo á samantekt fyrri vinnudaga (2 klst).

Það sem eftir er dags er frjáls tími. Það er margt hægt að gera – skreppa í  hjólatúr, taka ferju í einhvern bæjanna við vatnið, fara í létta göngu, eða bara slaka … eða bara eitthvað sem til hugar kemur.

Dagur 8

Við kveðjum hótelið okkar og ökum til Mílanó sem er með fallegan miðbæ, ægifagra dómkirkju og kastala og kastalagarð, og fallegar verslunargötur nærri dómkirkjunni, þar á meðal er Galleria Vittorio Emanuele sem er yfirbyggð verslanagata úr gleri og stáli. Svo er um að gera að rölta um og líta augum hið fræga Scala óperuhús og Leonardo da Vinci styttuna þar nærri svo eitthvað sé nefnt. Mílano er töfrandi blanda af gömlum tíma og nútímaborg. Sforza kastalinn á sér langa sögu og vel þess virði að ganga að honum og í almenningsgarðinn þar nærri. Eða labba hinn fræga tískuþríhyrning með frægustu merkjum Ítalíu.

Að kvöldi förum við í rútuna sem ekur okkur út á Malpensaflugvöll. Þaðan eigum við flug og komum heim endurnærð eftir dásamlega dvöl.

Þátttakendur námskeiðsins kynnast kundalini jóga og hugleiðslu og taka þátt í sjálfræktarnámskeiði þar sem unnin verða verkefni til að auka sjálfsþekkingu, greina áreiti í eigin lífi og átta sig á eigin viðbrögðum við álagi. Leiðir til að forgangsraða og viðhalda jafnvægi í daglegum verkefnum jafnt sem á álagstímum eru ræddar ásamt heppilegum næringarlindum og bjargráðum á álagstímabilum. Fjallað er um jákvæða hugsun, eigin viðhorf og lífshætti án steitu. Slökunaræfing er kennd.

Kennarar verða Guðrún Ingibjörg Hálfdanardóttir, leiðsögumaður og jógakennari og eigandi Eilífðarsólar ehf. og  Sigríður Hulda Jónsdóttir, ráðgjafi og eigandi SHJ ráðgjafar. 

SHJ ráðgjöf sérhæfir sig í fræðslu, stjórnendaráðgjöf og stefnumótunarvinnu fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Sigríður Hulda hefur um árabil starfað sem kennari, stjórnandi og ráðgjafi í menntakerfinu og var forstöðumaður Stúdentaþjónustu Háskólans í Reykjavík áður en hún stofnaði eigið fyrirtæki. Sigríður Hulda býður upp á fjölbreytt námskeið varðandi sjálfsrækt, færni á vinnustað, samskiptafærni og fleira. SHJ ráðgjöf hefur starfað með mörgum stærstu fyrirtækjum landsins svo sem Marel, Arion banka, Landsspítalanum, Háskóla Íslands, ÍAV o.fl.

Sigríður Hulda hefur setið í ýmsum stjórnum, leitt ráðstefnur hérlendis og erlendis og gefið út fræðsluefni sem þýtt hefur verið á nokkur tungumál.

Tími: 22.-29. september 2018

Verð: Í tveggja manna herbergi: 205.000 kr.
Í eins manns herbergi: 235.000 kr.

Innifalið: Flug, gisting, morgunverður og kvöldverður fjóra daga, dagsferðir til þriggja borga (Veróna, Feneyja og Mílanó), ferðir til og frá flugvelli, leiðsögn og jóga alla morgna og sjálfsræktarnámskeið. Að auki verða í boði gönguferðir og dagsferðir nærri vatninu fyrir þá sem vilja og í þær ferðir kostar ekkert nema gjald í strætó eða ferju.

Bóka ferð: gudrun@jogafri.is