894 8779 gudrun@eilifdarsol.is

Jógafrí

Jógafrí

Feneyjar eru stórbrotnar í allri sinni fegurð og oft kallaðar „La Regina dell‘Adriatico“ eða drottning Adríahafsins. Það er hrein upplifun að sigla niður Canale Grande og virða fyrir sér stórhýsi og glæsihallir liðinna tíma, kíkja í kaffi á eitt af aldagömlu kaffihúsunum við Markúsartorg og dást að stórfenglegum byggingum á borð við Markúsarkirkju, Hertogahöllina og Klukkuturninn Il Campanile.

feneyjar

Feneyjar eru reistar á mörgum hólmum og helsti ferðamáti íbúa innan borgarinnar hefur frá upphafi verið siglingar. Margar fallegar brýr tengja hólmana saman og því er þægilegt að fara ferða sinna fótgangandi en umfram allt skemmtilegt að sigla milli staða á gondóla, að degi eða kvöldi, jafnvel undir angurværum söng ræðarans. Kaffihúsin eru órjúfanlegur hluti af töfrum Feneyja. Kaffimenning Ítala er einstæð og það er frábær tilfinning að sitja yfir rjúkandi bolla á einhverju torginu og njóta fjölskrúðugs mannlífsins sem fyrir augu ber. Þekktustu kaffihúsin eru  við Markúsartorgið sem er þungamiðja borgarinnar og einn þekktasti staður Feneyja og þar kostar kaffibollinn ekki bara túkall –hægt er að njóta bollans og hlýða á flutning á einhverju verka Vivaldis við Florian sem er afar frægt og tilkomumikið kaffihús á Markúsartorginu með skrautlegum innréttingum. Þarna má sötra sitt ítalska kaffi og hugsa til manna eins og Casanova, Byron, Goethe og Proust sem sóttu þennan stað ...

Markúsarkirkjan Feneyjar

Ljón er að sjá víða í Feneyjum og eru tákn Markísar guðspjallamanns sem fékk reista kirkju yfir sínar jarðnesku leifar löngu eftir andlát sitt

Feneyjar eru höfuðborg Venetó héraðsins á Norðaustur-Ítalíu, hvorttveggja þekkt fyrir iðnað sinn sem og ásókn ferðamanna í borgina. Feneyjum stafar vaxandi hætta af flóðum, mengun og landsigi. Fólksflótti varð frá borginni vegna bágra lífskjara og á árunum 1968-1976 fluttu yfir 100.000 manns úr borginni en í dag búa þar um 270.000 manns.
Feneyjar eru reistar á 118 smáeyjum og á milli þeirra eru um 180 síki með um 400 brýr sem tengja eyjarnar saman. Flestir ferðast milli borgarhluta með almenningsbátum, svonefndum vaporetto en Feneyjar eru þó hvað frægastar fyrir gondólana sem er róið um síkin og hafa löngum verið ímynd rómantíkur. Byggingar Feneyja og menning hafa einnig verið seglar á ferðamenn í áranna rás.

feneyjavilla

Sigling um Stóra kanal gefur tækifæri til að berja augum ótalmargar villur og hallir sem standa með bökkum. Margar eru glæstar og hljóta að hafa verið upplifun fyrir margan ferðalanginn á öldum áður - tala nú ekki um þá Íslendinga sem þangað hafa ferðast og fæddir voru í torfbæjum!

feneyjalif

Að vera í Feneyjum er einstakt, og fyrir marga algert yndi – eins og að vera lentur í ævintýri í þessari einstöku borg þar sem vatn flýtur alltum kring... Eiginlega eins og að vera lentur í risastórri leikmynd sem er ekki svo amaleg ...