894 8779 gudrun@eilifdarsol.is

Jógafrí

Jógafrí

Jóga hlédrag eða jógaferð

Tyrkland er land margra heima með ríka menningu sem gerir það skemmtilegt ævintýr að heimsækja þetta land

Fethiye er strandbær við suðvesturströnd Tyrkland og liggur á sama stað og hin forna gríska borg Telemessos en minjar um þá borg má sjá til dæmis í útileikhúsi borgarinnar. Fethiye er staðsett við langa strönd hjá flóa með eyjum og fjöllum, litur hafsins er fallega blár. Við bjóðum dvöl á hóteli nærri Fethiye, eða í jógaathvarfi í Muğla héraðinu þar sem friðsemdin ríkir. Í jógaathvarfi eru meiri rólegheit í boði og hægt að setja inn í dagskrá meira jóga, hugleiðslur og slökun.

Fagurblár sjór, fallegir bæir og strendur – og já, kannski má góma geit með linsunni sinni!

Dagur 1

Flug til Dalaman flugvallar. Tekið er á móti hópnum á vellinum og ekið til gististaðar.

Dagur 2

Að loknu jóga og morgunverði er dagurinn frjáls hvort sem er til að hvílast eftir flug gærdagsins eða skoða næsta nágrenni gististaðarins. Langi þig til að njóta strandar og sjávar þá er stutt þangað.

Fallegt útsýni gefst til Dalyan bæjar ofan frá fjallinu við Kaunos bærinn forna

Dagur 3

Eftir frískandi jóga og morgunverð er farið í miðbæ Dalyan bæjar sem er fyrrum fiskimannabær og staðsettur við kanal sem liggur niður til Iztusu strandarinnar. Þetta svæði er þekkt fyrir vernd á fágætri tegund skjaldbaka. Við fáum far með bát yfir kanalinn og göngum sem leið liggur inn í dalinn, fram hjá fornum steingröfum sem höggnar voru í klettabergið ofan bæjarins. Áfangastaðurinn er Kaunos, sem sýnir fornar rústir frá 4. öld f. Kr. og þar má ganga í fótspor genginna kynslóða. Hægt er að ganga upp á höfða ofan Kaunos og fá stórfenglegt útsýni yfir héraðið.

Þaðan göngum við svo til baka til Dalyan og komum okkur á gististaðinn okkar góða.

Dagur 4

Frískandi jóga og hollur morgunverður bíður okkar að morgni og síðan er dagurinn alveg þinn.

Það er vel hægt að slaka heima og hafa það náðugt við sundlaug eða strönd. Hvernig væri að prófa tyrkneskt bað – eða leirböð? Ganga í náttúru nærri bænum eða ef þig langar eitthvert lengra – t.d. til Fethiye bæjar þá er hægt að taka strætó en ferðin tekur um klukkustund. Fethiye stendur við langa strönd og meðfram henni eru margir veitingastaðir og kaffihús. Miðbær Fethyie er líflegur og margt að sjá og skoða.

Draugabærinn Kayaköy, fyrrum heimkynni 3500 Grikkja

Dagur 5

Eftir jóga og morgunverð höldum við í dagsferð til hins sérstaka bæjar Kayaköy. Sérstaða hans verður öllum ljós þegar á staðinn kemur, hann lítur út dálítið eins og draugabær því hann var yfirgefinn árið 1923. Þar bjuggu þá Grikkir sem var gert að flytja til síns heimalands en engir Tyrkir fengust til að setjast að þar.

Við göngum um meðal húsanna og höldum síðan í göngu upp hæðina frá bænum og fylgjum stíg sem liggur meðfram ströndinni til fallegrar víkur sem ber nafnið Bláa lónið sökum síns fagurbláa litar. Gangan tekur um eina og hálfa klukkustund og er örlítið á fótinn en ætti að vera flestum vel fær. Við fegurð Bláa lónsins munum við una um tíma og halda svo áfram til bæjarins Ölüdeniz þar sem er undurfalleg og mjúk strönd og veitingastaðir.

Frá göngu milli Kayaköy og Ölüdeniz . Þar fæst frábært útsýni yfir fagurbláan sjó og eyjar.

Dagur 6

Dagurinn hefst með jóga og morgunverði og síðan bíður þín frjáls dagur. Hægt að njóta strandar eða bara vera á gististað, eða eitthvað annað …

Viltu fara í gönguferð upp að steingröfunum í fjallinu ofan Dalyan bæjar? Steingrafirnar eru frá 4. öld f. Kr. og voru fyrir eðalborið fólk af kóngaættum enda minna form og útlit á hof. Inni í gröfunum er steinhilla fyrir líkið og til hliðar sæti gerð úr steini sem voru fyrir gjafir færðar hinum látna.

Dagur 7

Við hefjum daginn á jóga og morgunverði. Á dagskrá dagsins er sigling um kanal og út til sjávar með viðkomu í eyjum og á fallegum ströndum.

Dagur 8

Brottfarardagur – ræðst af flugtímum frá flugvelli.

ðtil fornu steingrafanna í fjallinu við kanalinn í miðbæ Dalyan.’

Alla morgna verður jóga í boði áður en morgunverður hefst. Bæta má við inn í dagskrá hugleiðslu, jóga nidra og gong slökun seinni part dags ef áhugi er.

Dagskrá má ávallt breyta og aðlaga að óskum hópsins.

Gististaðir

Sedir Resort – lítill fjölskyldurekinn gististaður með góðri aðstöðu fyrir jógahópa. Gist í litlum húsum, sundlaug á staðnum, staðsett í Dalyan í mjög rólegu umhverfi.

Hotel Meri, staðsett við hið undurfagra Bláa lónið. Þriggja stjörnu hótel með góðri aðstöðu til að stunda jóga. Undurfallegt umhverfi, sundlaug og aðgengi að mjúkri sandströnd örstutt frá, staðsett á rólegum stað í um klukkustundar akstursfjarlægð frá Fethyie.

Ertu jógakennari og langar út með hópinn þinn til dvalar í athvarfi? – þá eru þetta góðir kostir!

Fyrirspurnir og upplýsingar:
Guðrún Hálfdanardóttir – sími 894-8779 – netfang: gudrun@eilifdarsol.is